Samþykkt á löglega boðuðum aðalfundi þann 29.09.2020
Félagið heitir Rafmyntaráð Íslands.
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
Tilgangur félagsins er að koma Íslandi í fremstu röð landa, þar sem rafmyntir og bálkakeðjur eru notaðar. Fræða Íslendinga, fyrirtæki og stjórnvöld á Íslandi um kosti rafmynta og bálkakeðja. Hafa jákvæð áhrif á regluverk á Íslandi með það að markmiði að laða að notendur sem og fyrirtæki til Íslands, sem nýta rafmyntir eða bálkakeðjur.
Félagið mun stuðla að kynningu á rafmyntum og bálkakeðjum. Nýta starfskrafta félagsmanna ásamt því að nýta sjóði félagsins til að greiða fyrir annan kostnað sem fellur undir tilgang félagsins.
Félagsaðild er öllum opin sem hafa lögheimili á Íslandi, hafa íslenska kennitölu og vilja vinna að markmiðum félagsins.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn skulu taka þátt í aðalfundi.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 10. október ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað og telst tölvupóstur á skráð tölvupóstfang allra félagsmanna sem löglega boðaður aðalfundur. Stjórn félagsins getur boðað til auka aðalfundar ef þörf er á nauðsynlegum og tímaháðum lagabreytingum félagsins. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna, sem hafa verið skráðir félagsmenn lengur en eitt ár, eru kjörgengir og ræður atkvæðagreiðsla úrslitum mála.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, þar af formanni og gjaldkera, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn, auk tveggja varamanna. Þeir fimm félagsmenn með flest atkvæði á aðalfundi skulu skipa stjórn félagsins og næstu tveir vera varamenn. Ef komi upp sú staða að tveir eða fleiri frambjóðendur hljóti sama atkvæðafjölda skal hlutkesti ráða. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfundar á amk. tveggja mánaða fresti en meirihluti stjórnar getur einnig farið fram á að stjórnarfundur sé haldinn utan þess tímaramma. Stjórnarfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað með að lágmarki viku fyrirvara og telst tölvupóstur á skráð tölvupóstfang allra stjórnarmanna sem löglega boðaður stjórnarfundur. Stjórnarfundir skulu vera haldnir að lögheimili félagsins eða öðrum stað sem meirihluti stjórnar hefur sammælst um á Íslandi. Heimilt er að sækja stjórnarfundi og greiða atkvæði gegnum fjarfundarbúnað. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
Í Auraráði sitja þeir þrír félagsmenn sem lengst hafa verið meðlimir félagsins og hafa þann tilgang að deila ábyrgð á vörslu rafmynta félagsins. Varsla rafmynta skal vera þannig tryggð að það þarf tvo af þremur einstaklinga í Auraráði til að ráðstafa rafmyntum félagsins. Auraráð getur ekki lagt til hvernig skuli nýta rafmyntirnar og skal einungis greiða framkvæmdastjóra félagsins og eða gjaldkera úr rafmyntasjóðum félagsins. Auraráði ber einungis að greiða fyrir rekstrarkostnað, sem fellur til vegna starfsemi félagsins og hefur verið samþykktur af stjórn.
Auraráð getur slitið stjórn, boðað til aðalfundar og kosningar nýrrar stjórnar, ef það telur ráðstöfun fjármuna sjóðsins ekki í samræmi við tilgang félagsins.
Félagsgjald félagsins er 5.000 kr. eða sambærileg upphæð í formi rafmyntanna Bitcoin eða Auroracoin og er 25% afsláttur gefinn ef greitt er með þeim rafmyntum. Félagsgjald er innheimt árlega og skal ákvörðun um það vera tekin á hverjum aðalfundi.
Rekstrarafgangi og hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til kynningar og fræðslu á rafmyntum og bálkakeðjum á Íslandi.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með auknum meirihluta atkvæða ásamt einföldum meirihluta stjórnar og renna eignir þess til Barnaspítala Hringsins.